Johannsson.net
 

Ég vil meiri kraft
Hvað er til ráða?

Það er ansi algengt að fólk sé að velta þessu fyrir sér, bíllinn sem var keyptur fyrir stuttu hefur ekki getað sannað sig gegn  bílum félaganna og spyrnur eru að tapast, nú eða jafnvel er þörfin fyrir meiri hraða eða hröðun er svo mikil að eitthvað verður að gera.

Það er alveg sama hvernig á málin er litið, hestöfl kosta peninga, mikla peninga, ég man eftir að hafa séð slagorð límt í glugga í fyrstu Mad Max myndinni, en þar stóð “Hraði er bara spurning um peninga, hve hratt kemst þú?”  Mér finnst þetta slagorð segja það sem segja þarf.  Það er samt gott að hafa í huga, að eftir því sem bíllinn er með fleiri hestöfl innanborðs, þeim mun dýrara er oftast að auka við þau. En rennum samt yfir helstu atriðin sem hægt er að gera til að auka kraftinn.

Pústið.
Það er mjög vinsælt þessa dagana að setja opnara púst undir bílana, maður er að sjá aftan á þessa bíla og þar gín við manni risastórt op á hljóðkútnum, maður ósjálfrátt styttir í ólinni sem er bundin í hundinn svo hann fari ekki að skríða þarna inn.
Remus er Austurrískt fyrirtæki sem framleiðir fræg kraftpúst, þeir hafa verið lengi að og hafa náð góðum markaði í Evrópu og Asíu, en vegna strangra mengunarlaga í Bandaríkjunum hafa þeir komist hægt inn á Bandaríska markaðinn, en eru þó komnir þangað núna með eitthvað af vörum sínum. Þeir sýna á vefsíðum sínum (
www.remus-usa.com) fram á 12 hestafla aukningu á VW Golf 1,8Turbo við að setja undir hann Remus pústkerfi, þeirra pústkerfi eiga að minnka bakflæði í pústkerfinu og veita þar af leiðandi betra flæði í gegnum kerfið, að mínu áliti er frekar ósanngjarnt að sýna nákvæmlega þennan bíl í prófun, því turbobílar eru mjög háðir því að koma miklu flæði frá vélinni burt, og ég efast ekki um að þessi 12 hestöfl hafi verið raunveruleg, en hvað þá með venjulegar vélar? Þ.e. vélar sem eru ekki með túrbínu?  Ég skoðaði óháða hestaflamælingu á BMW Z3 sem er með XXX vél, það var sett Remus pústkerfi undir þann bíl og bíllinn hestaflamældur, aukningin var 4 hestöfl á mjög háum snúning, engin aukning varð á togi (torque) né hestöflum á lægri snúning.  Þetta er mjög misjafnt hvað fæst út úr þessum pústkerfum, það sem ég myndi mæla með er að fá hestaflamælingu frá pústframleiðandanum þar sem samskonar bíll og þinn var notaður, því ef þeir bjóða upp á pústkerfi í bílinn þinn þá hljóta þeir að hafa prófað það er það ekki? 

Ef við skoðum kostnað per hestafl á BMW Z3 bílnum, þá erum við að tala um að pústkerfið kostar ca 80.000 krónur komið í bílinn, sem gerir 20.000 krónur á hvert hestafl.

Nítró.
Nitrous Oxide (N2O) er gastegund sem oftast er bara kölluð Nítró á íslensku, það halda margir að þetta heiti NOS, en það er ekki svo, NOS er fyrirtæki í Bandaríkjunum sem framleiðir Nítró kerfi fyrir vélar.  Þegar við erum að tala um bensínvélar þá er ein einföld regla sem er gott að muna, meira loft = meira bensín = meiri kraftur, loft bens hvað? Jú, til að vél geti gengið þarf hún bensin, og til að brenna bensíni þá þarf að blanda bensíni við loft og við það myndast bensíngufur, bensín brennur ekki í vökvaformi, eða í það minnsta ekki vel hugsa ég, og þess vegna þarf að breyta því í gufuform og það þarf alltaf að vera sama hlutfall af bensíni og lofti í þessari gufu til að fá bestu nýtinguna úr bensíninu, og þetta hlutfall er alltaf það sama.  Það er mikill hiti í kringum vélar í gangi, og ef við munum eftir eðlisfræðitímunum í gaggó, þá kom þar örugglega fram einhverntíman að heitt loft tekur meira pláss en kalt loft, og hvað segir þetta okkur?  Hmm.. Ef við myndum kæla loftið sem fer inn í vélina, þá gætum við komið meira bensíni fyrir í blöndunni, því mundu, hlutfallið þarf alltaf að vera það sama.  Og þá sannast hið fornkveðna, meira loft = meira bensín = meiri kraftur !!!  En hvað kemur Nítró öllu þessu við?  Eins og ég sagði áðan, þá er Nítró gastegund, og þessi gastegund er haldinn þeim eiginleika að henni er úðað út í andrúmsloftið þá verður hún óskaplega köld, þá datt einhverjum snillingum í hug að prófa að úða Nítrói inn í vélina með loftinu og bensíninu, og til hvers? Jú, til að kæla loftið, sem gefur okkur tækifæri á að setja meira bensín með í leiðinni, sem svo í lokin þýðir meiri kraftur !!  Ég ætla ekki að fara út í tæknilegar pælingar með hin ýmsu Nítró kerfi hérna í þessari grein, en það er samt gott að vita að þegar Nítró er sett á vélar, þá þarf að koma til auka bensín innsprautun, því innspýtingin/blöndungurinn hafa ekki hugmynd um að það sé tækifæri á að dæla inn meira bensíni þegar Nítrói er úðað með, þess vegna eru litlar dælur með Nítró kerfunum sem sjá um þetta auka bensínflæði, og þar sem mikil hætta er á að vélin forsprengi þegar Nítró er notað eru kerfin sett þannig upp að aðeins er hægt að skjóta því inn þegar bensíngjöfin er í botni.  Nítró er hægt að nota á allar bensínvélar, fjölventla, innspýtingavélar, turbovélar osfrv.

Það er talsverð vinna við að setja Nítrókerfi í bíla, og ég get ímyndað mér að hæft verkstæði tæki 20-40.000 krónur fyrir að gera þetta.  Ég skoðaði hestaflamælingu á 1984 árgerð af Porsche 944, 4 strokka bíll sem var 125 hestöfl í mælingu, það var sett Nítrókerfi í hann og prófað aftur, 175 hestöfl var niðurstaðan.. 50 hestöfl fengust við að setja Nítrókerfi í gamlingjann og togið fór úr 127 í 201  sem er ekkert smáræði, en athugið að þessi hestöfl koma aðeins í botngjöf, og í stuttan tíma í einu því hvorki þolir vélin langtíma notkun né er gaskúturinn nægilega stór fyrir langan rúnt með gasið á fullu.
Nítrókerfi sem er svokallað “blautt kerfi” kostar  um það bið 90.000 krónur, þannig að með ísetningu erum við að tala um kannski 130.000 krónur, sem gerir í tilfelli Porsche’ins hér að ofan 2.600 krónur á hestaflið sem er ekki svo slæmt. Og ekki má heldur gleyma að það þarf að fylla reglulega á kútinn, AGA gerir það og kostar hver áfylling XXX krónur.

Heitir knastásar og stilling á knastásum.
Knastás er stöng sem tímastillir opnun og lekun ventla í vélinni.  Þarna er oftast hægt að gera mikið, með réttum knastásum má breyta aflsviði véla mikið, til dæmis má fá knastása sem gefa mikið tog á lágum snúning, eitthvað sem hentar vel fyrir jeppa, sem og knastása sem gefa mikin kraft á háum snúning, sem flestir vilja í götukappakstur og þess háttar akstur. Ég ætla að geyma mér að skrifa nákvæmar tæknilegar útskýringar á knastásum þar til síðar, en það eru þó nokkur atriði sem vert er að minnast á.
Ef ákvörðun er tekin um að fá sér nýjan knastás þá þarf að passa vel að skða vel hvað er í boði, flestir ef ekki allir knastásframleiðendur bjóða upp á mjög ítarlegar lýsingar á knastásunum sínum, skoðaðu þessar lýsingar þeirra vel, og ef það er eitthvað sem þú skilur ekki spurðu þá fagmann, það er nóg af þeim hérna á skerinu.  Ekki velja þér knastás sem er gerður fyrir breytta vél, nema þá að sjálfsögðu að þú sért með breytta vél, það er boðið upp á knastása sem eru hannaðir fyrir óbreyttar vélar og þú getur lesið nákvæmlega hvað þessi knastás mun gera fyrir vélina þína, veldu það sem þú ert hrifnastur af.  Þó þú sért með opið púst eða opna loftsíu þá hefur það engin áhrif á þetta val, veldu samt knastás fyrir óbreytta vél.   Til að mynda gefa góðir knastásar Hondu Acura í kringum 30 hestöfl. En það má ekki gleyma því að krafturinn eykst á næstum öllum snúning.
Þegar vélar eru framleiddar þá eru þær reiknaðar út af sérfræðingum sem vita vel hvað þeir eru að gera, það er ekkert tilviljunum háð í hönnun véla í dag, en þó að flestir hönnuðir vildu helst skila frá sér vél sem er á mörkum þess að vera keyranleg og fá þá í staðinn eins mikinn kraft úr vélinni og mögulegt er þá er það ekki mjög söluvænt, fáir myndi sætta sig við 20.000 kílómetra endingu á nýja bílnum sínum, en samt er sumum sama, og það eru þeir einstaklingar sem eru óhræddir við að gera breytingar á bílunum sínum.  Það eru næstum undantekningarlaust mjög góðir og vel útreiknaðir knastásar í nýjum bílum í dag, en það er þó ekki þar með sagt að ekki sé hægt að gera betur, eða kannski væri betra að segja “meira”. Því að þegar vél er hönnuð þá er knastásinn að sjálfsögðu hannaður með nákvæmlega þessa vél í huga, og hannaður í samræmi við það, þ.e. fá sem mestan kraft, bestu kælingu, minnstu eyðslu og allt það, en svo þegar vélin er framleidd þá er knastásinn oftast stilltur örlítið til baka, vanstilltur má segja, og af hverju er það gert?  Jú, til að auka á endingu vélarinnar.  Það er hægt í flestum tilfellum að stilla knastásinn aftur eins og hann var upphaflega hannaður til að vera, það krefst fagmanns að gera þetta en kraftaukning getur verið umtalsverð.  Það er ekki ólíklegt að 4 strokka 2 lítra vél með 2 knastásum geti náð sér í 10 hestöfl við að stilla upprunalegu knastásana rétt inn.  Þeir sem eru í amerísku drekunum þekkja þessa aðgerð vel, og vita líka hvað þessi stilling er mikilvæg.  Það er þó hægt að velja tvennskonar stillingar, annars vegar fyrir háan snúning, og hinsvegar fyrir alhliða akstur, margir freistast til að velja hásnúnings stillinguna en ég myndi mæla með að knastásar séu stilltir með alhliða akstur í huga.

Það er ekki ólíklegt að vanur maður sé kannski 10-20 tíma að stilla inn knastása í twin-cam japönsku bíl, það eru talsverðar upplýsingar sem þurfa að vera fyrir hendi um vélina  áður en þetta er gert, en það er örugglega hægt að finna þær flestar á netinu í dag.
Þetta þýðir að þessi 10 hestöfl geta kostað þig allt upp í 80.000 krónur, eða í kringum 8000 krónur á hestaflið.  Það verður þó að hafa í huga að þetta getur tekið mun lengri tíma en ég stakk upp á hér að ofan.  En þetta er aðgerð sem ég persónulega myndi mæla með ef þú ert að velta fyrir þér meiri krafti.

Ef þú ert aftur á móti að velta fyrir þér að skipta knastásunum út, þá má reikna með að 2 knastásar kosti þig um 80.000 krónur, og ísetning og stilling kostar það sama og að ofan, eða aðrar 80.000 krónur, sem gera í allt 160.000 krónur, margir myndu telja að 5300 kall fyrir hestaflið sé ekki mikið, og í þessu tilviki er ég sammála því.