Johannsson.net
 

Nítró, hvað er það og hvað gerir það?

Nitrous Oxide (N2O) er gastegund sem oftast er bara kölluð Nítró á íslensku, það halda margir að þetta gas heiti NOS, en það er ekki svo, NOS er aðeins eitt af þeim fyrirtækjum sem framleiða Nítró kerfi fyrir vélar, annar framleiðandi er til dæmis ZEX.  Það kemur kannski einhverjum á óvart en það er að Nítró er ekki eldfimt gas, þrátt fyrir að það sé notað til að fá meiri kraft í vélar og jú, Nítró er oft kallað hlátursgas, tannlæknar notuðu það hér áður fyrr til að deyfa sjúklinga fyrir aðgerð. Undirritaður verslaði sér fyrir allnokkrum árum Nítrókerfi og sat ég hamingjusamur tvítugur patti með Nítrópakkann í höndunum, ég horfði aðdáunaaugum á kútinn, leit á félaga minn sem sat í farþegasætinu og ég sá að við vorum að hugsa það sama, pakkinn var rifinn upp, gluggum lokað og skrúfað frá kútnum.. ég mæli kannski ekki með að fólk geri þetta að staðaldri en við fengum stuttu síðar það heimskulegasta hláturskast sem við höfðum upplifað, þannig að ég get staðfest að Nítró virkar vel sem hlátursgas.  En áfram með tæknimálin..

Þegar við erum að tala um bensínvélar þá er ein einföld regla sem er gott að muna, meira loft = meira bensín = meiri kraftur,
Til að vél geti gengið þarf hún bensin, og til að brenna bensíni þá þarf að blanda bensíninu við loft og mynda bensíngufur, bensín brennur ekki í vökvaformi og þess vegna þarf að breyta því í gufuform og það þarf alltaf að vera sama hlutfall af bensíni og lofti í þessari gufu til að fá bestu nýtinguna úr bensíninu, þetta hlutfall er alltaf það sama. 
Það er mikill hiti í kringum vélar sem eru í gangi, og fyrir þá sem voru vakandi í eðlisfræðitímunum í gaggó, þá kom þar örugglega fram einhverntíman að heitt loft tekur meira pláss en kalt loft, og hvað segir þetta okkur?  Jú.. Ef við myndum kæla loftið sem fer inn í vélina, þá gætum við komið meira lofti fyrir í blöndunni og þar af leiðandi meira bensíni, því mundu, hlutfallið þarf alltaf að vera það sama.  Og þá sannast hið fornkveðna, meira loft = meira bensín = meiri kraftur !!! 

En hvað kemur Nítró öllu þessu við?  Eins og ég sagði áðan, þá er Nítró gastegund, og þessi gastegund er haldinn þeim eiginleika að þegar henni er úðað út í andrúmsloftið þá verður hún óskaplega köld. Einhver snillingur hefur þá fengið þá hugmynd að prófa að úða Nítrói inn í vélina með loftinu og bensíninu, og til hvers? Jú, til að kæla loftið, sem gefur okkur tækifæri á að setja meira bensín með í leiðinni, sem svo í lokin þýðir meiri kraftur !!  Menn hafa sosum einnig notað fleiri aðferðir við að kæla bensíngufurnar, það var talsvert um það fyrir nokkuð mörgum árum að menn settu vatnsinnspýttingar á vélarnar, þar voru kaldar vatnsgufur notaðar í sama tilgangi og Nítróið er notað í dag.  Það má til gamans geta þess að það var fyrst byrjað að nota Nítró í síðari heimsstyrjöldinni á flugvélar bandamanna til að gefa þeim smá spark þegar þeir voru í bardögum við óvininn.

Það sem menn gera til að nýta Nítró í að kæla loftið/bensínið á vélunnum hjá sér er að Nítróinu er úðað með bensíngufunum inn á vélina, flóknara er það ekki í raun og veru.  Það eru aðallega notaðar þrjár gerðir Nítrókerfi í bíla í dag, svokölluð þurrkerfi, blautkerfi og Direct Portkerfi (stundum kallað Foggerkerfi).

Þurrkerfið vinnur á þann hátt að það er sprautað Nítrói inn á vélina í loftinntakinu, málið er að þegar það er sprautað Nítrói á vélina þá eins og ég sagði að ofan, kemst meira loft inn á vélina, og það þýðir að vélin þarf meira bensín, flestar vélar í dag eru tölvustýrðar og hafa því ekki hugmynd um að það sé eitthvað verið að vesenast í loftmagninu með einhverju gasi og dælir bara sínu venjulega magni af bensíni sem gerir blönduna allt of veika, sem getur haft slæmar afleiðingar í för með sér.  Þess vegna þarf að plata tölvuna til ða dæla meira bensíni inn á vélina þegar Nítrói er úðað inn, það má einnig auka bensínþrýstinginn inn á innspýtinguna og halda spíssunum opnum lengur til að nægt bensínmagn fáist.

Blautkerfið vinnur í raun á sama hátt og þurrkerfið en þarna losnar maður við að pæla í innspýtingu og öllu því, því Nítrókerfið sér sjálft um að dæla þessu aukabensíni sem vélin þarf þegar Nítróinu er úðað inn. Á blöndungsbílum er blautkerfið góður kostur þar sem hægt er að fá plötu sem er einfaldlega sett undir blöndunginn og í þessari plötu eru úðaðar sem sjá um að úða bensíni og Nítrói inn á vélina, en það eru litlar dælur sem sjá um að dæla þessu öllu í réttum hlutföllum.

Direct Portkerfið (Fogger) er sennilega öflugasta kerfið, en þar eru settir sér úðarar á hvern strokk vélarinnar, það eru boruð göt í hverja soggrein og þessir úðarar settir þar, á milli innspýtingar/blöndungs og vélar, þarna fær maður hreinan kraft beint í æð í hvern strokk. Eins og í blautkerfinu þá sér Nítrókerfið sjálft um að blanda Nítróinu og bensíninu þannig að það þarf ekkert að velta fyrir sér stillingum eða breytingum á innspýtingum eða blöndungum.

Það þarf ekki að breyta miklu í vélinni þegar Nítró er sett við vélina, það er þó mælst með því að keypt séu góð kerti, og þá jafnvel 1 til 2 stigum kaldari en venjulegu kertin.  Það getur gerst að léleg kerti hreinlega brenni upp þegar Nítróið er notað að einhverju ráði, og legg ég til að ef þú ert að fá þér Nítró, fylgstu MJÖG vel með kertunum, þau eru eiginlega það eina sem segja þér hvort þú sért að gera rétta hluti eða hvort þú sért að rústa vélinni.  Nítrókerfi eru mörg stillanleg, bæði þrýstingur og spíssastærðir, ef þú ert ekki 100% öruggur á því hvað þú ert að gera, byrjaðu þá smátt, notaðu minnstu spíssana/þrýstinginn því ef þú ferð einu stigi of hátt þá gætirðu endað með brotna stimpla og stangir og fleiri huggulegheit.  Vélar taka ekki endalaust við bensíni þannig að farðu varlega.

Gasið á kútnum endist ekki endalaust því miður, algengt er að kúturinn endist í 1 til 3 mínútur, þannig að ef þú varst farinn að sjá fyrir þér Reykjavík/Keflavík á methraða þá verður þú fyrir vonbrigðum, nema þú kaupir þér 10 kúta og fáir duglegan félaga með skiptilykil með þér.  Einnig er gott að hafa í huga að þar sem gasið er mjög kalt, þá getur kúturinn orðið það líka, og jafnvel svo kaldur að það frjósi í stútnum á honum og janfvel slöngum, einnig minnkar þrýstingurinn á kútnum við mikinn utanaðkomandi kulda og þess vegna er mjög sniðugt að kaupa sér hitara á kútinn, en er það oftast bara hitateppi sem er vafið utan um kútinn til að halda á honum smá hita.

Það er getur verið talsverð vinna við að setja Nítrókerfi í bíla, og ég mæli með því að láta fagmenn sjá um að gera það, ein smávægileg mistök geta kostað heilan mótor.  Það eru margir hér á landi sem eru vanir þessum kerfum, enda hafa kvartmílumenn og jeppamenn notað Nítró hér á landi í mörg ár með frábærum árangri.

Ég skoðaði hestaflamælingu á 1984 árgerð af Porsche 944, 4 strokka bíll sem var 125 hestöfl í mælingu, það var sett Nítrókerfi (blautkerfi) í hann og prófað aftur, 175 hestöfl var niðurstaðan.. 50 hestöfl fengust við að setja Nítrókerfi í gamlingjann og togið fór úr 127 í 201  sem er ekkert smáræði, en athugið að þessi hestöfl koma aðeins í botngjöf, og í stuttan tíma í einu því hvorki þolir vélin langtíma notkun né er gaskúturinn nægilega stór fyrir langan rúnt með gasið á fullu.